Fótbolti

Svona fór Tottenham í úrslitaleikinn: Mörk á ögurstundu, Llorente og hetjudáðir Moura | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, smellir kossi á fyrirliðann Hugo Lloris eftir að Spurs tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, smellir kossi á fyrirliðann Hugo Lloris eftir að Spurs tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. vísir/getty
Tottenham leikur á morgun í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn í sögu félagsins. Andstæðingurinn, Liverpool, er öllu reyndari á þessu sviði og er í úrslitum Meistaradeildarinnar í níunda sinn. Úrslitaleikurinn fer fram á Wanda Metropolatino, heimavelli Atlético Madrid.

Eftir þrjár umferðir í riðlakeppninni benti fátt til þess að Tottenham færi í úrslit Meistaradeildarinnar. Spurs var aðeins með eitt stig og þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum gegn PSV Eindhoven í 4. umferð riðlakeppninnar var liðið 0-1 undir. En Harry Kane kom Tottenham til bjargar með tveimur mörkum.

Tottenham vann Inter, 1-0, á Wembley og í lokaumferð riðlakeppninnar gerði Spurs jafntefli við Barcelona á Nývangi, 1-1. Spurs endaði með átta stig í riðlinum, líkt og Inter, en fór áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli í innbyrðis viðureignum liðanna.

Í 16-liða úrslitunum sló Tottenham Borussia Dortmund út, 4-0 samanlagt.

Llorente skorar markið dýrmæta gegn Manchester City.vísir/getty
Englandsmeistarar Manchester City voru andstæðingar Tottenham í 8-liða úrslitunum. Son Heung-min tryggði Spurs sigur í fyrri leiknum á Tottenham vellinum, 1-0. Hugo Lloris, fyrirliði Tottenham, átti stóran þátt í sigrinum en hann varði vítaspyrnu Sergios Agüero í leiknum.

Seinni leikurinn á Etihad byrjaði með þvílíkum látum og eftir 21 mínútu var staðan 3-2, City í vil. Agüero kom City í bílstjórasætið þegar hann kom liðinu í 4-2 á 59. mínútu en varamaðurinn Fernando Llorente skaut Spurs áfram þegar hann skoraði á 73. mínútu.

Raheem Sterling skoraði fyrir City í uppbótartíma en markið var dæmt af með hjálp myndbandsdómgæslu. Einvígið fór 4-4 en Tottenham fór áfram á mörkum skoruðum á útivelli.

Moura fagnar markinu sem skaut Tottenham í úrslitaleikinn.vísir/getty
Í undanúrslitunum mætti Tottenham spútnikliði Ajax. Hollendingarnir unnu fyrri leikinn í London, 0-1, og voru 2-0 yfir í hálfleik í þeim seinni í Amsterdam.

Þá tók Moura til sinna ráða. Brassinn skoraði tvö mörk á fjórum mínútum í upphafi seinni hálfleiks. Og þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði hann svo markið sem tryggði Spurs farseðilinn til Madrídar.

Öll 20 mörkin sem Tottenham hefur skorað í Meistaradeildinni í vetur má sjá hér fyrir neðan. Smella þarf á myndbandið til að horfa á YouTube.






Tengdar fréttir

Mettilboð frá Tottenham í miðjumann Real Betis

Tottenham hefur ekki keypt einn einasta leikmann í síðustu tveimur félagsskiptagluggum en nú lítur út fyrir að félagið ætli að slá félagsmetið í upphafi sumargluggans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×