Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, sagði gærkvöldið hafa verið ótrúlegt kvöld þrátt fyrir tap Englands fyrir Hollandi í undanúrslitum Þjóðadeildar UEFA.
England tapaði leiknum 3-1 eftir framlengingu, en staðan var 1-1 að loknum venjulegum leiktíma.
„Þetta var ótrúlegt kvöld með allt það sem gerðist í leiknum. Ég held við höfum lært mjög mikið þegar kemur að því að spila við topplið sem gaf okkur öðruvísi vandamál en við höfum þurft að leysa áður,“ sagði Southgate í leikslok.
„Við ógnuðum í leiknum en við fengum á okkur virkilega slæm mörk. Við áttum tækifæri til þess að skora en nýttum þau ekki.“
Jesse Lingard kom boltanum í netið seint í venjulegum leiktíma en mark hans var dæmt af vegna rangstöðu eftir myndbandsdómgæslu. Hollendingar skoruðu svo tvö mörk í framlengingunni.
„Þegar þú telur þig hafa skorað á 85. mínútu en markið er svo tekið af þér og svo fáum við annað mark á okkur, það tók kraft úr liðinu.“
„Síðasta markið kom upp úr þreytu. Ross Barkley hafði fengið krampa stuttu áður. Þegar þú ert þreyttur þá gerir þú mistök.“
