Chelsea og Real Madrid hafa komist að samkomulagi um verð á belgíska landsliðsmanninum Eden Hazard. Guardian greindi frá þessu í kvöld.
Félagsskipti Hazard til spænska stórveldisins hafa legið í loftinu undanfarin misseri en í kvöld komust félögin að samkomulagi um kaupverð. Real Madrid mun punga út 100 milljónum evra fyrir Hazard, með mögulegum aukagreiðslum.
Nú eru félögin að undirbúa samninga og verða félagsskiptin tilkynnt á næstu dögum samkvæmt frétt the Guardian.
Hazard vann Evrópudeildina með Chelsea á dögunum og eftir úrslitaleikinn sagði hann að leikurinn hafi líklega verið kveðjustund sín hjá enska félaginu.
