Fjárhagslegur ávinningur ríkissjóðs af sölu eigna á Ásbrú er um 14 milljarðar króna en síðustu eignirnar sem heyrðu áður undir gamla varnarliðssvæðið voru seldar á árinu. Þá hefur Reykjanesbær fengið um 370 milljónir króna í gatnagerðargjöld af verkefninu.
„Þessi ávinningur verður að teljast mun meiri en vonir stóðu til við brotthvarf Varnarliðsins á sínum tíma,“ segir Ísak Ernir Kristinsson, stjórnarformaður Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf.
Kadeco, sem er félag í eigu ríkisins, hefur leitt þróun og umbreytingu á gamla varnarliðssvæðinu frá árinu 2006 þegar bandarísk stjórnvöld skiluðu svæðinu til íslenskra stjórnvalda. Nú búa á fjórða þúsund manns á Ásbrú og á þriðja hundruð fyrirtæki eru skráð á svæðinu sem skapa um þúsund störf.
Síðustu eignir Kadeco voru seldar á árinu og því eru allar eignir sem félagið fékk til umsýslu árið 2006 komnar í borgaraleg not.
Samkvæmt greiningu sem stjórn félagsins lét vinna er fjárhagslegur ávinningur ríkissjóðs, eiganda félagsins, af verkefninu um 14 milljarðar króna.
14 milljarðar ávinningur ríkisins af sölu eigna á Ásbrú
