Báðir leikir íslensku liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar verða sýndir á sportstöðvum Stöðvar 2 í kvöld.
Stjarnan sækir Espanyol heim og hefst leikurinn klukkan 19:00. Hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan 18:55.
Valur fær Ludogorets í heimsókn. Leikurinn hefst einnig klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Útsendingin hefst klukkan 18:45.
Seinni leikir liðanna, sem fara fram eftir viku, verða einnig sýndir beint á sportstöðvum Stöðvar 2.
Bæði Stjarnan og Valur eiga erfitt verkefni fyrir höndum í kvöld.
Espanyol lenti í 7. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og tryggði sér þátttökurétt í Evrópukeppni í fyrsta sinn frá tímabilinu 2006-07. Þá komst Espanyol alla leið í úrslit UEFA-bikarsins þar sem liðið tapaði fyrir Sevilla í vítaspyrnukeppni.
Ludogorets, sem hefur orðið búlgarskur meistari átta ár í röð, hefur náð góðum árangri í Evrópukeppnum á undanförnum ár. Ludogorets hefur m.a. tvisvar komist í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Líkt og Valur tók Ludogorets þátt í 1. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Þar féll liðið úr leik fyrir Ferencváros frá Ungverjalandi, 5-3 samanlagt. Valur tapaði fyrir Maribor frá Slóveníu, 5-0 samanlagt.
