Guðjón Valur hefur átt langan og glæsilegan feril sem spannar næstum því aldarfjórðung.
Hann hefur leikið með íslenska landsliðinu í 20 ár og farið með því á 21 stórmót. HM í Þýskalandi og Danmörku í byrjun árs var fyrsta stórmótið sem Guðjón Valur missir af síðan hann kom inn í landsliðið árið 1999. Hann hefur verið fyrirliði þess síðan 2012.
Guðjón Valur var hluti af íslenska liðinu sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum 2008 og bronsverðlauna á EM tveimur árum síðar. Hann var einnig í íslenska liðinu sem lenti í 4. sæti á EM 2002, 5. sæti á Ólympíuleikunum 2012 og EM 2014 og 6. sæti á HM 2011.

Guðjón Valur var markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2005-06 með 263 mörk og markahæstur á HM í Þýskalandi 2007 með 66 mörk.
Hann var valinn í úrvalslið Ólympíuleikanna 2008 og EM 2012 og 2014. Þá var Guðjón Valur kjörinn Íþróttamaður ársins 2006.

Hornamaðurinn hraðskreiði lék með AG København tímabilið 2011-12. Hann varð tvöfaldur meistari með danska ofurliðinu sem komst einnig í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.
Guðjón Valur lék undir stjórn Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel á árunum 2012-14. Hann varð tvisvar sinnum þýskur meistari með liðinu og einu sinni bikarmeistari. Þá fór Kiel alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2014 þar sem liðið tapaði fyrir Flensburg.

Guðjón Valur sneri aftur til Löwen 2016 og varð þýskur meistari á sínu fyrsta tímabili með félaginu. Tímabilið 2017-18 urðu Ljónin svo bikarmeistarar.
Í lok janúar á þessu ári skrifaði Guðjón Valur, þá 39 ára, svo undir samning við PSG þar sem hann mun fylla skarð Uwe Gensheimer sem fór aftur til Löwen.
Í haust hefst því nýr og spennandi kafli á einstökum ferli Guðjóns Vals Sigurðssonar.
