Gung-Ho er fimm kílómetra langt skemmtihlaup þar sem þátttakendur fara í gegnum 10 risastórar hindranir sem öllum á að vera fært að takast á við enda meira til gamans gert heldur en að reyna á líkamlega getu þátttakenda.
Þrautirnar eru af ýmsum stærðum og gerðum. Stærsta þrautin ber heitið Walking On The Moon og stærsta uppblásna hindrun í heiminum enda tæpir 400 fermetrar og 2.000 rúmmetrar að stærð. Það þarf jafnmikið loft til að blása upp Walking on the moon eins og það tekur að blása lofti í 33 milljónir fótbolta. Á meðfylgjandi myndbandi má sjá skemmtilega loftmynd af því þegar starfsmenn Gung-Ho blésu miðjuhluta hindrunarinnar upp.
Búast má við allt að 5.000 þátttakendum í Gung-Ho í ár en rúmlega 4.000 manns hafa nú þegar skráð sig til leiks á viðburðinn og orðið uppselt í 10 af 17 ráshólfum í Gung-Ho.

Hlaupaleiðin í Laugardalnum
Start og endamark Gung-Ho! verður á grassvæðinu fyrir neðan Áskirkju við Laugarásveg og ofan við gömlu þvottalaugarnar. Byrjað verður á þrautinni Start me up í upphafi hlaups og þaðan farið norður í átt að tjaldsvæðunum í Laugardal, út á gangstéttina við Sundlaugaveg og aftur inn í Laugardalinn við austurenda Laugardalslaugar þaðan sem hlaupið er með fram World Class og komið að þrautinni Day Tripper. Svo er hlaupið út fyrir Laugardalsvöllinn og komið að þrautinni Can I kick it áður en hlaupið er í átt að Laugardalshöllinni, farið yfir Engjaveginn og svo til vesturs í átt að Reykjavegi þar sem komið er að þrautinni Born slippy. Að henni lokinni er hlaupið á göngustígnum fyrir neðan Suðurlandsbrautina í átt að Glæsibæ. Fyrir ofan Laugardalshöllina fara þátttakendur í gegnum þrautina Surfin’ og halda svo áfram áleiðis í átt að grassvæðinu til móts við Glæsibæ þar sem þeirra bíður þrautin Maniac. Að henni lokinni er hlaupið utan með Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í átt að þrautinni Under pressure við rætur Holtavegar. Þaðan er hlaupið inn í Grasagarðinn þar sem finna má þrautirnar The Wall og Walking on the moon sem er tæpir 400 fermetrar að stærð, áður en hlaupið er aftur inn í endamarkið þar sem lokaþrautin The Final Countdown endar fjörið með þátttakendum.Þeim sem koma akandi á viðburðinn er bent á bílastæði í nágrenninu en næg bílastæði má t.d. finna við Holtaveg, Langholtsskóla, KFUM/K, Glæsibæ og Suðurlandsbraut. Að gefnu tilefni er bent á að ekki er ætlast til að bílum sé lagt við Laugarásveginn.