Fótbolti

Ajax slapp með skrekkinn á Kýpur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andre Onana átti góðan leik í marki Ajax gegn APOEL.
Andre Onana átti góðan leik í marki Ajax gegn APOEL. vísir/getty
Ajax, sem komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili, gerði markalaust jafntefli við APOEL í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.

Ajax átti undir högg að sækja í leiknum. Andre Onana varði tvisvar vel frá Lucas Souza og Andrija Pavlovic átti skot í slána á marki gestanna.

Þegar tíu mínútur voru til leiksloka fékk Noussair Mazraoui, hægri bakvörður Ajax, sitt annað gula spjald og þar með rautt. Kýpverjarnir náðu ekki að nýta sér liðsmuninn og leiknum lyktaði með markalausu jafntefli.

Seinni leikur liðanna fer fram í Amsterdam eftir viku. Ljóst er að lítið má út af bera hjá Hollandsmeisturunum þá.

Tveir aðrir leikir fóru fram í umspilinu í kvöld. Slavia Prag vann 0-1 útisigur á Cluj og Club Brugge bar sigurorð af Linz með sömu markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×