Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins og framkvæmdastjóri Öskju, segir að bílasala á fyrri hluta árs 2018 hafi gengið afar vel. Aftur á móti hafi skarpur samdráttur orðið á seinni helmingi ársins. Hann megi rekja til þess að fólk hélt að sér höndum því verkalýðsforystan krafðist umtalsverðra launahækkana en kjarasamningar voru lausir. Það skapaðist því mikil óvissa um framvindu mála í efnahagslífinu og sömuleiðis hafi ríkti óvissa um hvort rekstri WOW air yrði haldið áfram.
Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir að samdrátturinn hafi hafist í febrúar 2018, hann hafi aukist um sumarið og svo kom dýfa í september. Á þeim tíma hafi gengi krónu sömuleiðis veikst sem dragi almennt úr bílasölu. Í 18 mánuði af síðustu 19 hafi bílasala dregist saman.

Hann segir að reksturinn í ár gangi betur. Tekjur atvinnutækjasviðsins hafi vaxið mikið eftir að flutt var í hentugra húsnæði og viðsnúningur sé hjá bílaleigunni. Velta bílaleigunnar sé hin sama og í fyrra þrátt fyrir að bílum í flotanum hafi fækkað um 30 prósent og starfsmönnum fækkað. Engu að síður sé þjónustustigið jafn gott og áður sem þakka megi sjálfvirknivæðingu.
Jón Trausti segist vera ánægður með að Askja hafi verið rekin með 12 milljóna króna hagnaði árið 2018 í ljósi markaðsaðstæðna. „Reksturinn í ár er sömuleiðis krefjandi. Það er áframhaldandi samdráttur í bílasölu á þessu ári. Reikna má með að hann muni nema 35 til 40 prósentum. Ég er hins vegar nokkuð bjartsýnn á árin 2020 til 2022. Það er mikil þörf á endurnýjun bíla og það verður kominn betri taktur í efnahagslífið þegar ýmissi óvissu varðandi ferðaþjónustuna hefur létt.“
Hann segir að bílasala hafi gengið afar vel á árunum 2015-2017. Bílaumboðin hafi á þeim árum hagað rekstrinum með þeim hætti að safnast hafi upp sterkt eigið fé. Fyrirtækin standi því traustum fótum og geti því mætt þeirri ágjöf sem fylgir minni bílasölu. „Það hafa alltaf verið miklar sveiflur í bílasölu, þær eru hluti af okkar veruleika.“
Jón Trausti vekur athygli á að Askja hafi aldrei greitt arð heldur fjárfest fyrir hagnaðinn í innviðum til að geta þjónustað viðskiptavini betur. Fyrirtækið hafi til dæmis nýlega byggt tvö fullbúin bílaverkstæði á Krókhálsi sem og nýjan sýningarsal fyrir KIA sem var opnaður í janúar.