Afatískan gengur út á stíl sem minnir á fötin sem afi og amma klæðast, en aðaláherslan er á þægindi. Nýsjálenski vefurinn Stuff fjallaði um tískustrauminn fyrir skömmu.
Ef orðið „afatíska“ fær þig til að hugsa um strigaskó með frönskum rennilás, íþróttagalla úr velúrefni, inniskó og sandala, mittistöskur og ofvaxna jakka, þá ertu á réttri braut.

Tískufyrirmyndir eins og Iris Apfel hafa átt sinn þátt í velgengni afatískunnar og fleiri eldri borgarar hafa fetað í fótspor hennar og gert góða hluti á Instagram.

Þau hafa átt stóran þátt í að gera flíkur eins og buxur með broti, ofvaxin gleraugu, kassalaga jakka og Jesúsandala vinsæla. Þessi stíll dregur líka innblástur frá tísku tíunda áratugar og frá Kóreu og Japan.

Þægindi og uppreisn
Þægindi skipta líka mjög miklu, enda kýs eldra fólk fötin sín oft einfaldlega vegna þess að þau eru þægileg. Það hefur verið almenn aukning í áherslu á þægindi og nytsemi í tísku, en áherslan er samt ekki svo algjör að það gleymist að passa upp á litasamsetningar, réttu efnin og að fötin passi vel.Eins og svo margt byrjaði þetta sem stíll sem átti að vera nokkurs konar andsvar gegn hefðbundinni tísku en endaði svo með því að verða enn einn tískustraumurinn.
Að sumu leyti er afatískan andsvar við fegurðarstöðlum tískuheimsins, þar sem lögð er áhersla á föt sem sýna líkamann, í stað þess að fela hann. Fyrir stelpur getur afatískan verið uppreisn gegn viðteknum venjum og þröngum kjólum. Sumum konum finnst líka valdeflandi að klæða sig í þessum stíl, því þá eru þær að hugsa um þægindi og klæða sig fyrir sig og ekki einhvern annan.?
