Póllandsmeistarar Kielce vilja klófesta Selfyssinginn unga, Hauk Þrastarson.
Samkvæmt heimildum íþróttadeildar var Haukur í Póllandi um helgina og skoðaði aðstæður hjá Kielce. Talant Duyshebaev, þjálfari Kielce, hefur mikinn áhuga á Hauki og vill fá hann til félagsins.
Heimildir íþróttadeildar herma að Danmerkurmeistarar Aalborg og Magdeburg vilji líka fá Hauk sem var í lykilhlutverki hjá Selfossi sem varð Íslandsmeistari á síðasta tímabili. Skjern, sem Patrekur Jóhannesson þjálfar, hefur einnig sýnt Hauki mikinn áhuga.
Patrekur þjálfaði Selfoss á árunum 2017-19 og með liðinu leikur Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson sem hefur farið afar vel af stað með Skjern.
Haukur hefur verið valinn efnilegasti leikmaður Olís-deildarinnar undanfarin tvö ár.
Hann lék sinn fyrsta A-landsleik vorið 2018, þá aðeins 16 ára. Hann fór með íslenska landsliðinu á HM í Þýskalandi og Danmörku í janúar og spilaði tvo leiki.
Haukur var valinn besti leikmaður EM U-18 ára í fyrra. Ísland endaði þá í 2. sæti.
