Handbolti

Selfoss missir annan lykilmann í krossbandsslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverrir Pálsson í vörn Selfossliðsins á síðustu leiktíð.
Sverrir Pálsson í vörn Selfossliðsins á síðustu leiktíð. Vísir/Bára
Sverrir Pálsson verður ekki með Íslandsmeisturum Selfoss í Olís deild karla í vetur og er þetta mikið áfall fyrir meistarana sem hafa þegar misst þjálfara sinn og besta leikmann.

Sverrir Pálsson sleit krossband á Opna Norðlenska mótinu á Akureyri á dögunum. Sunnlenska sagði frá þessu og Íþróttadeild fékk þetta líka staðfest hjá aðstoðarþjálfara Selfossliðins, Erni Þrastarsyni.

Sverrir Pálsson var ein af stjörnum Selfossliðsins síðasta vetur en hann stóð sig frábærlega í vörn liðsins og þá sérstaklega í úrslitakeppninni.

Sverrir er annar sterkur leikmaður Selfossliðsins með slitið krossband því skyttan Einar Sverrisson reif krossband í mars og er enn að jafna sig af þeim meiðslum. Einar ætti þó að geta spilað með Selfossliðinu eftir áramót ef endurhæfingin gengur vel.

Það mun því reyna mikið á Grím Hergeirsson, nýjan þjálfara Selfossliðsins, að fylla í skörð Sverris Pálssonar og Elvars Arnar Jónssonar í miðri vörn liðsins. Þessir tveir voru margra manna maki í vörn liðsins á síðustu leiktíð og verður sárt saknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×