Embætti landlæknis sem flytja þurfti úr húsnæði sínu fyrir ári vegna myglu ætlar að flytja á sjöttu hæð á Höfðatorgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reginn fasteignafélagi, eiganda Höfðatorgs. Flutningarnir fara fram í nóvember.
Ríkiskaup auglýsti eftir framtíðarhúsnæði fyrir embættið í apríl. Varð Höfðatorg niðurstaðan en áttatíu manns starfa hjá Landlækni og munu dreifa sér um 1500 fermetra rými.
Landlæknisembættið flutti frá Heilsuverndarstöðinni á Barónstíg í apríl vegna mygluvanda. Hefur starfsemin síðan þá verið á Rauðarárstíg 10.

