Fótbolti

Fyrsta enska konan til að sinna dómgæslu í Evrópukeppni karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sian Massey-Ellis á línunni í ensku úrvalsdeildinni.
Sian Massey-Ellis á línunni í ensku úrvalsdeildinni. Getty/ Visionhaus
Sian Massey-Ellis verður á línunni í Evrópudeildarleik í kvöld og skrifar um leið söguna fyrir breska kvenfótboltadómara.

Sian Massey-Ellis verður aðstoðardómari í leik hollenska félagsins PSV Eindhoven og LASK frá Austurríki.

Í ágúst síðastliðnum var Sian Massey-Ellis á línunni í leiknum um Samfélagsskjöldinn fyrst kvenna og þá hefur hún reglulega verið á línunni í leikjum í ensku úrvalsdeildinni.





Sian Massey-Ellis kom einnig hingað til lands í haust og var aðstoðardómari í leik Íslands og Ungverjalands á Laugardalsvelli en sá leikur var í undankeppni EM 2021.

„Það hefur verið draumur minn að dæma Evrópuleik. Það er núna orðið eðlilegra að sjá konur dæma í karlaboltanum,“ sagði Sian Massey-Ellis við BBC.

„Á endanum á það ekki að skipta máli af hvoru kyni, hvaða kynþætti eða hverrar trúar dómari er. Þetta snýst um að skila þínu starfi og gera það eins vel og þú getur,“ sagði Sian.

Sian hefur dæmt bæði á heimsmeistaramóti kvenna sem og í úrslitaleik Meistaradeildar kvenna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×