Fótbolti

„Stærsta málið er að vera huguð“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Breiðablik sækir Paris Saint-Germain heim í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:00.

PSG er í góðri stöðu eftir 0-4 sigur á Kópavogsvelli í fyrri leiknum. Blikar mæta samt óhræddir til leiks í kvöld að sögn þjálfarans, Þorsteins Halldórssonar.

„Við ætlum að njóta þess að spila og reyna að spila sem allra best og klára tímabilið á jákvæðu nótunum,“ sagði Þorsteinn í samtali við íþróttadeild í gær.

„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við erum ekki að fara vinna 5-0 en við förum bjartsýn og ákveðin í að enda mótið á góðum leik.“

Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður og fyrirliði Breiðabliks, missti af fyrri leiknum gegn PSG vegna meiðsla. Þorsteinn segir ágætis líkur á að hún geti spilað í kvöld. Annars sé staðan á Blikaliðinu góð.

Þjálfarinn segir að Breiðablik verði að sýna kjark og þor í leiknum í kvöld.

„Stærsta málið er að vera huguð og það sé kjarkur í okkur til að framkvæma hluti. Það er okkar mottó fyrir morgundaginn [daginn í dag]; að spila með miklu hugrekki,“ sagði Þorsteinn.

„Þessi keppni hefur farið í reynslubankann hjá okkur og hafi gert leikmönnum og liðinu mjög gott.“

PSG er með eitt sterkasta lið heims og hefur unnið alla sjö leiki sína í frönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu með markatölunni 29-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×