Evrópsku áfangastaðirnir sex sem Play horfir til í upphafi eru Kaupmannahöfn, Lundúnir, París, Berlín, Alícante og Tenerife. Flugfélagið segist þegar hafa náð samkomulagi um lendingartíma á flugvöllum áfangastaðanna. Upplýsingafulltrúi félagsins vill þó ekki taka jafn djúpt í árinni.
Eins og fram kom á blaðamannafundi Play á þriðjudag verður í upphafi stuðst við tvær Airbus-þotur til að sinna áætlunarflugi félagsins. Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, sagði að fyrst væri horft til sex áfangastaða í Evrópu, þar af til tveggja sólarferðastaða.
Með vorinu er ætlunin að vélum félagsins fjölgi í sex og þá muni Play jafnframt hefja áætlunarflug til fjögurra borga í Bandaríkjunum. Í fjárfestakynningu, sem Íslensk verðbréf kynntu íslensku fjárfestum í síðustu viku, eru evrópsku borgirnar tilgreindar, fyrrnefndu borgirnar sex, að því er fram kemur á Kjarnanum.
Þar segir jafnframt að viðræður séu hafnar við flugvelli á þessum áfangastöðum og að Play hafi þegar útvegað sér afgreiðslutíma á völlunum. Flugfélagið hafi þar að auki samið um eldsneytiskaup við BP og verðið sé fast hálft ár fram í tímann, sem skapi fyrirsjáanleika í rekstrinum. Þá sé Play búið að ná hagstæðari samningum um viðhald á Airbus-vélum félagsins en WOW air bjó við á sínum tíma, aukinheldur muni flugafgreiðsla í Keflavík vera í höndum „nýs aðila“ sem bjóði áður óþekkt kjör.
Upplýsingafulltrúi Play dregur þó aðeins í land í samtali við Morgunblaðið. Áætlanir geti enn breyst en þó styttist í að leiðakerfi Play verði endanlega staðfest. Hún tekur þó fram að ekki sé verið að horfa til annarra áfangastaða á þessari stundu en þeirra sem nefndir eru hér að framan.
