Handbolti

Kári í jötunmóð í byrjun tímabils

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Kári ásamt börnum sínum en guttinn er forfallinn í fótbolta en Klara er í handbolta og finnst stórkostlegt að sjá pabba gamla valinn í landsliðið.
Kári ásamt börnum sínum en guttinn er forfallinn í fótbolta en Klara er í handbolta og finnst stórkostlegt að sjá pabba gamla valinn í landsliðið.
„Þetta var, að ég hélt, skip sem hafði siglt. En mig langaði að sjá hvort ég væri ennþá með þetta og það er alltaf gaman að mæla sig við þá bestu. Ég er alveg keppnismaður og það er gaman að sjá hvar maður stendur gegn þessum stóru jöxlum. Svo er ekkert leyndarmál að það er ekkert leiðinlegt að spila með Aroni Pálmarssyni,“ segir Kári Kristján Kristjánsson, línumaður ÍBV, sem spilaði nýverið tvo æfingalandsleiki með íslenska landsliðinu gegn Svíum – svo eftir var tekið.

Kári fór út til Svíþjóðar 34 ára gamall en kom heim 35 ára því að hann átti afmæli þegar flogið var heim á leið.

„Það var ógleymanlegur afmælisdagur. Vaknað snemma, farið í rútu í þrjá tíma til að bíða á flugvellinum og fljúga svo í þrjá tíma heim til Íslands. Bíða í Keflavík til að keyra að Landeyjahöfn í tvo og hálfan klukkutíma og fara í dallinn í klukkutíma. Ekkert væl. Það þýðir ekkert,“ segir hann léttur sem fyrr. Hann bætir því við að hann muni blása til veislu fyrr en síðar enda ekki á hverjum degi sem stórafmæli bankar upp á.

„Maður verður að fagna tímamótum því maður veit aldrei hvenær kallið kemur.“

Hann segist vera ánægður með frammistöðu sína í þessum tveimur leikjum. „Ég segi fyrir mína parta að ég er mjög ánægður með útkomuna úr þessum tveimur leikjum í Svíþjóð. Er helvíti sáttur. Ef þetta er eitthvað sem menn vilja treysta á þá er ég fær í flestan sjó.“

Kári Kristján Kristjánsson í kunnuglegri stellingu, inni á línu, búinn að hrista af sér varnarmann og við það að setja boltann í netið. Fréttablaðið/Ernir
Engin tengiskrift

Það eru kunnugleg stef þegar tölfræði Kára í deildinni er skoðuð. Tæp fjögur mörk í leik, um 80 prósenta nýting og rétt tvö víti fiskuð í leik.

„Það er ekkert nýtt undir sólinni þar og ég er ekki að fara að rífa einhverjar kanínur upp úr töfrahattinum. Þetta er engin tengiskrift – þarf ekkert að vera flókið, en ég neita því ekki að það er aðeins meiri kraftur í manni en áður. Ég tók drullugott sumar. Áherslan að undanförnu hefur verið þannig hjá mér að leggja meiri áherslu á aflraunir en hinar hefðbundnu lyftingar. Ég labbaði úti með drasl á bakinu og var að halda á kútum og þannig í bland við þetta hefðbundna.“

Hann segir að skrokkurinn sé í fínu lagi þó hann sjái aðeins eftir því að hafa ekki alltaf verið þungur. „Ég hefði alveg verið til í að vera alltaf svona þungur, miðað við hvernig ferillinn er búinn að þróast. Þegar er komið út í þennan alþjóðabolta þá telja kílóin mikið,“ segir Kári sem lék í Sviss, Þýskalandi og Danmörku á atvinnumannsferlinum áður en hann sneri aftur heim til Íslands árið 2015.

Kári skoraði jöfnunarmarkið fyrir ÍBV gegn Haukum á þriðjudag þegar tvær sekúndur voru eftir. Hann segir að leikirnir gegn Haukum séu alltaf skemmtilegir. „Það er ekkert leyndarmál að þessi lið leggja af stað inn í hvert tímabil til að taka dollur. ÍBV er komið á þann stað að það er reiknað með titli sem er geggjað. Alveg hrikalega gaman að taka þátt í því. Þetta eru stórir leikir. Það er blóð sviti og tár og allt þetta helsta.

Það voru fullt af hlutum sem féll ekki með okkur. Þetta leit ekkert sérstaklega vel út á tímabili og ef mér hefði verið boðið stigið þegar fimm mínútur voru eftir hefði ég þegið það. En mér fannst, þegar við stilltum upp, við vera með sterk tök sóknarlega en við erum svolítið óheppnir.“

Um Olís-deildina segir hann að margt eigi eftir að gerast enda hún nýfarin af stað og aðeins sjö leikir búnir hjá hverju liði.

„Það er viðbúið að það gerist alltaf eitthvað óvænt. Það eru bara sjö leikir búnir og við erum ekki komnir heila umferð. Tökum spjall þegar heil umferð er búin – þá skal ég segja þér eitthvað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×