Spænski sóknarmaðurinn Gonzalo Zamorano Leon er farinn frá Pepsi-Max deildarliði ÍA en þetta kemur fram í tilkynningu sem Skagamenn sendu frá sér í gær.
Þar segir jafnframt að þessi 24 ára gamli leikmaður hafi fullan hug á að spila fótbolta áfram á Íslandi.
Gonzalo hefur gert það gott í neðri deildum á Íslandi með Víkingi Ólafsvík og Huginn en honum tókst ekki að skora eitt einasta mark í þeim 22 leikjum sem hann lék fyrir Skagamenn síðasta sumar eftir að hafa raðað inn mörkum á undirbúningstímabilinu.
Skagamenn höfnuðu í 10.sæti Pepsi-Max deildarinnar á síðustu leiktíð en voru þó sjö stigum frá fallsvæðinu.

