Fótbolti

Zlatan gefur í skyn að hann semji við Hammarby

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic í leik með Los Angeles Galaxy.
Zlatan Ibrahimovic í leik með Los Angeles Galaxy. Getty/Shaun Clark
Zlatan Ibrahimovic setti inn færslu á samfélagsmiðla sína, Instagram og Twitter, í morgun sem sjá má neðst hér í fréttinni þar sem hann merkir sænska úrvalsdeildarliðið Hammarby í færslunni.

Miðað við færsluna er þessi sænska goðsögn búinn að semja við Hammarby. Það verður þó að teljast afar ótrúlegt en engin tilkynning hefur borist frá félaginu varðandi það að Zlatan sé genginn til liðs við félagið.

„Það kom á óvart að sjá þessa færslu frá Zlatan í morgun. Við getum ekki tjáð okkur um þetta að svo stöddu,“ er haft eftir Love Gustafsson, fjölmiðlafulltrúa Hammarby, í sænskum fjölmiðlum.

Sænskir fjölmiðlar fóru á fullt í kjölfar færslunnar en samkvæmt heimildum Fotbollskanalen voru forráðamenn Hammarby í Los Angeles um helgina.

Enginn virðist hafa trú á því að Zlatan sé að fara að spila fyrir Hammarby sem hafnaði í 3.sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en íslenski Bandaríkjamaðurinn Aron Jóhannsson er á mála hjá félaginu.

Einhverjir vilja meina að Zlatan sé að fara í eitthvað annað hlutverk en leikmaður hjá Hammarby en hann hefur átt í samningaviðræðum við sitt gamla félag, AC Milan, auk þess að geta líklega valið úr tilboðum hvaðanæva úr heiminum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×