Brighton vann 1-2 útisigur á Arsenal í lokaleik 15. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Þetta var annar leikur Arsenal undir stjórn Freddies Ljungberg og sá fyrsti á Emirates.
Neal Maupay skoraði sigurmark Brighton sem er í 13. sæti deildarinnar.
Arsenal er í 10. sætinu en liðið hefur ekki unnið í sjö deildarleikjum í röð.
Brighton var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Adam Webster kom gestunum yfir eftir hornspyrnu á 36. mínútu.
Arsenal byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og á 50. mínútu jafnaði Alexandre Lacazette með skalla eftir hornspyrnu Mesuts Özil.
Á 63. mínútu skoraði David Luiz fyrir Arsenal en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.
Þegar tíu mínútur voru til leiksloka skallaði Maupay fyrirgjöf Aarons Moy í netið og kom Brighton aftur yfir. Fleiri urðu mörkin ekki og Mávarnir fögnuðu 1-2 sigri.
Þetta var fyrsti sigur Brighton á Arsenal á útivelli í sögu félagsins.
Brighton vann á Emirates og ófarir Arsenal halda áfram
