Handbolti

Eyjamenn heiðruðu minningu Kolbeins um helgina | Myndband

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Stór mynd af Kolbeini Aroni Ingibjargarsyni var afhjúpuð í Íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum um helgina. Kolbeinn, sem lést á aðfangadag í fyrra, hefði orðið þrítugur 30. nóvember síðastliðinn. Vinir Kolla og ÍBV tóku daginn snemma og buðu svo Eyjamönnum að mæta í íþróttamiðstöðina þar sem mynd honum til heiðurs var afhjúpuð. Kolbeinn spilaði nánast allan sinn fyrir ÍBV en hann lék tæplega 300 leiki fyrir félagið.

„Þetta er sérstök stund fyrir okkur. Þetta er minning um það sem hann stóð fyrir og hans gildi sem voru falleg og höfðu alltaf góð áhrif á alla sem í kringum hann voru,“ sagði Arnar Pétursson, fyrrum þjálfari ÍBV.

Hundrað hvítum blöðrum var sleppt fyrir utan íþróttahúsið en eftir það var gestum og gangandi boðið inní klefa meistaraflokks karla að skoða Kollahornið.

„Hann sat alltaf í þessu horni, þetta er reyndar óvenju fínt núna, þetta var ekki svona fínt þegar hann sat hérna. Þetta er heilagt horn í dag,“ sagði Grétar Þór Eyþórsson, leikmaður ÍBV um Kollahornið.

Ölstofan Brothers Brewery bruggaði bjór Kolla til heiðurs sem fékk nafnið „They call me mr Kolli.“

„Það er mikill karakter í þessum, léttur ljúfur og kátur eins og Kolli var,“ sagði Jóhann Guðmundsson, bruggmeistari og eigandi The Brothers brewery, um bjórinn sem er New England IPA.

Áður en vinir og vandamenn héldu til veislu sem stóð fram á kvöld voru tendruð kerti á Heimakletti sem mynduðu táknið #1 sem Eyjamenn nota í minningu Kolbeins.

Myndband frá laugardeginum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×