Enski boltinn

„Enginn vill mæta Liverpool“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Andy Robertson í leik með Liverpool.
Andy Robertson í leik með Liverpool. vísir/getty

Andy Robertson, bakvörður Liverpool, segir að ekkert lið vilji mæta Bítlaborgarliðinu er dregið verður í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar á morgun.

Liverpool tryggði sig áfram í 16-liða úrslitin með 2-0 sigri á Red Bull Salzburg í síðasta leik riðilsins en Liverpool sem á titil að verja verður þar af leiðandi í pottinum á morgun.

„Við berum virðingu fyrir öllum andstæðingum en við vitum hvernig við höfum gert hlutina síðustu tvö ár og enginn vill spila gegn okkur. Það er klárt en við verðum að sýna það,“ sagði skoski fyrirliðinn.

„Við getum ekki bara stólað á það heldur þurfum við að halda áfram að sýna hvers vegna liðin vilja ekki spila gegn okkur. Við munum bíða og sjá hverja við fáum.“







„Við vitum að það verður erfitt verkefni en við hlökkum til þess því við viljum aftur fara lengra í keppninni.“

Liverpool hefur síðustu tvö ár unnið lið eins og Manchester City, Roma og Bayern München í Meistaradeildinni en frægasti sigurinn er gegn Barcelona í undanúrslitunum í maí.

„Það er andrúmsloftið sem við höfum búið til síðustu tvö ár. Liðið hefur verið í úrslitaleiknum síðustu tvö ár og hefur augljóslega tapað einum og unnið einn. Það er borin virðing fyrir okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×