Fótbolti

Sænsk knattspyrnulið skipuleggja æfingamót í maí og forsætisráðherrann er ekki sáttur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson og félagar í AIK þurfa að bíða með að byrja tímabilið í sænsku úrvalsdeildinni en leika þó æfingaleiki.
Kolbeinn Sigþórsson og félagar í AIK þurfa að bíða með að byrja tímabilið í sænsku úrvalsdeildinni en leika þó æfingaleiki. VÍSIR/GETTY

Stefan Löfven, sem hefur verið forsætisráðherra Svía frá árinu 2014, er mjög ósáttur með sænsk knattspyrnulið og segir að þau séu ekki að hjálpa sænsku samfélagi í baráttunni gegn kórónuveirunni með því að vera spila fótboltaleiki.

Nokkur lið í efstu deild sænska boltans hafa skipulagt æfingamót í maímánuði en Svíarnir hafa verið að æfa að undanförnu. Þeir ætla að spila æfingaleiki í maí og búa sig undir það að hefja mótið í júní.

Á meðal æfingaleikja sem eru á dagskránni er slagurinn um Stokkhólm, milli Hammarby og Djurgården, en Löfven er einn þeirra sem hefur lítinn húmor fyrir þessu.

„Mér finnst þetta vera ábyrgðarlaust og ekki nauðsynlegt. Ég elska fótbolta og ég vil horfa á hann eins oft og ég get en núna er ekki tíminn til þess að spila meistaraflokksleiki,“ sagði Löfven við Aftonbladet.

„Allir sem hafa spilað á þessu stigi vita að það líður í mesta lagi ein mínúta á milli þess að maður fer í návigi og þá getur maður smitað hvorn annan en einnig meitt sig og þar með tekið pláss á spítalanum sem aðrir hafa þörf á.“

Hann bætir við að lokum að hann hafi ekki hugsað sér að grípa inn í né láta sænska knattspyrnusambandið grípa inn í. Hann segir að fótboltaheimurinn þurfi að ákveða sig sjálfur hvað hann gerir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×