Aaron Ramsdale, markvörður Bournemouth, er með kórónuveiruna. Hann er annar leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni sem greinir frá því að hann hafi smitast af veirunni.
Í síðustu viku sagði Adrian Mariappa, varnarmaður Watford, frá því að hann væri með veiruna.
Ramsdale greindist í annarri skoðun meðal leikmanna og starfsfólks liðanna í ensku úrvalsdeildinni. Tvö af 996 sýnum reyndust jákvæð. Alls hafa átta úr ensku úrvalsdeildinni greinst með veiruna.
Ramsdale segist ekki vera með nein einkenni veirunnar. Hann fer núna í viku einangrun. Markvörðurinn telur að hann hafi smitast af veirunni í búðarferð.
Hinn 22 ára Ramsdale hefur leikið 28 af 29 leikjum Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Hann er uppalinn hjá Sheffield United en hefur einnig leikið með Chesterfield og Wimbledon.
Bournemouth er í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 27 stig