Breska hagkerfið dróst saman um 20,4 prósent í aprílmánuði miðað við mánuðinn á undan og er það mesti samdráttur í breskri sögu.
Tölurnar sýna glöggt áhrif kórónuveirufaraldursins en Bretum var gert að vera meira og minna heima hjá sér og lamaðist þjóðfélagið nær algerlega.
Samdrátturinn í apríl er þannig þrisvar sinnum meiri en samdrátturinn í fjármálahruninu. Í upphafi faraldursins, eða frá febrúar og fram í apríl var samdráttur einnig töluverður, eða 10,4 prósent.
Eins og áður sagði lamaðist nær allt hagkerfið í Bretlandi en mesti samdrátturinn er í veitingarekstri, bílasölu, heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu.