Handboltakonurnar Hanna G. Stefánsdóttir og Elísabet Gunnarsdóttir hafa framlengt samninga sína við Stjörnuna.
Þær eru í hópi reynslumestu leikmanna landsins. Næsta tímabil verður t.a.m. það 26. hjá Hönnu í meistaraflokki.
Hanna, sem varð 41 árs fyrr á árinu, var fyrst í leikmannahópi Hauka tímabilið 1994-95. Hún var í hóp í einum deildarleik það tímabil og sjö tímabilið 1995-96. Fyrstu mörkin í meistaraflokki skoraði hún tímabilið 1996-97.
Hanna hefur leikið með Stjörnunni frá 2010. Hún lék með Haukum 1995-2003 og svo aftur 2004-2010. Í millitíðinni lék hún með Team Tvis Holstebro í Danmörku.
Á síðasta tímabili skoraði Hanna 42 mörk í tólf leikjum í Olís-deildinni. Elísabet skoraði tíu mörk í fimm deildarleikjum. Stjarnan var í 3. sæti Olís-deildarinnar þegar keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins.
Hanna lék 142 landsleiki á sínum tíma og skoraði 458 mörk. Elísabet lék 63 landsleiki og skorað 73 mörk.
Rakel Dögg Bragadóttir stýrir Stjörnunni á næsta tímabili. Liðið hefur bætt við sig nokkrum leikmönnum, þ.á.m. landsliðskonunum Helenu Rut Örvarsdóttur og Evu Björk Davíðsdóttur.
Komnar:
- Helena Rut Örvarsdóttir frá SønderjyskE (Danmörku)
- Eva Björk Davíðsdóttir frá Skuru (Svíþjóð)
- Katla María Magnúsdóttir frá Selfossi
- Heiðrún Dís Magnúsdóttir frá Fram
- Anna Karen Hansdóttir frá Horsens (Danmörku)
- Liisa Bergdís Arnarsdóttir frá Kongsvinger (Noregi)
Farnar:
- Ólöf Ásta Arnþórsdóttir til HK
- Þórey Anna Ásgeirsdóttir til Vals