Það ræðst í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport á morgun hver er besti spilari landsins í FIFA 20 tölvuleiknum. Þá fara fram undanúrslit og úrslit.
Aron Þormar Lárusson og Róbert Daði Sigurþórsson úr Fylki, sem eru í hópi bestu þriggja prósenta heims í leiknum, eru báðir í undanúrslitunum og þeir ræddu við Kjartan Atla Kjartansson í Sportinu í dag.
Undanúrslitin hefjast kl. 15 á morgun. Aron Þormar mætir Leifi Sævarssyni úr LFG en Róbert Daði mætir Tindi Örvari Örvarssyni úr Elliða. Hátt í 60 spilarar hófu keppni á Íslandsmótinu og á morgun verður Íslandsmeistari krýndur.
„Við ætlum að mætast í úrslitunum,“ segja þeir Aron og Róbert, en Róbert hafði betur þegar þeir félagar mættust síðast, með marki í uppbótartíma.
Róbert sagði Kjartani frá því að hann hefði á einum tímapunkti verið í hópi 100 bestu spilara heims. Aron var í nýstofnuðu landsliði Íslands sem mætti Rúmeníu í vináttulandsleik á dögunum.
Innslagið má sjá hér að neðan.
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.