Fótbolti

Allt gengur Ísak og Norrköping í hag

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með U17-liði Íslands.
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með U17-liði Íslands. vísir/getty

Hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann Jóhannesson hélt í kvöld áfram að láta til sín taka í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta en hann átt þátt í öðru af mörkum toppliðs Norrköping í 2-0 sigri á Örebro.

Á Twitter-síðu Norrköping sagði að Ísak hefði lagt upp mark í leiknum en hann leiðrétti það sjálfur og benti á að Henrik Castegren hefði átt sendinguna. Sjálfur hefði Ísak bara hoppað yfir boltann. „Hann mun ekki eiga svo margar stoðsendingar,“ sagði Ísak léttur, reiðubúinn að gefa Castegren heiðurinn.

Ísak hefur þó lagt upp þrjú mörk á leiktíðinni og skorað sjálfur eitt fyrir Norrköping sem er með gott forskot á toppi deildarinnar. Norrköping er með 20 stig eftir átta leiki, hefur enn ekki tapað leik, og er sjö stigum á undan næstu liðum sem reyndar eru sex jöfn að stigum.

Malmö er eitt þeirra liða sem er sjö stigum frá toppnum en liðið vann Östersund 2-1 á útivelli í dag án Arnórs Ingva Traustasonar.

Hörður Björgvin Magnússon lék allan leikinn í 2-1 tapi CSKA Moskvu gegn Lokomotiv Moskvu í rússnesku úrvalsdeildinni. CSKA er í 4. sæti deildarinnar með 47 stig, nú sjö stigum á eftir Lokomotiv og 22 stigum frá toppliði Zenit þegar ein umferð er eftir. Arnór Sigurðsson var ekki í leikmannahópi CSKA í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×