Sala á neftóbaki hefur dregist saman um 36 prósent milli ára á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra, að því er fram kemur í svari ÁTVR við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, telur innkomu nikótínpúða á íslenskan markað geta útskýrt þennan samdrátt.
Tóbakslausir nikótínpúðar hafa notið mikilla vinsælda eftir að þeir fóru í sölu hér á landi á síðasta ári. Eru þeir mun ódýrari en íslenska neftóbakið sem hefur hækkað um nokkur hundruð prósent í verði síðasta áratug og hafa verið áberandi á ýmsum sölustöðum.
Að sögn Sigrúnar varð áberandi minnkun í sölu neftóbaksins þegar púðarnir urðu fáanlegir hér á landi, en þar sem þeir falla ekki undir reglugerð um bann við sölu á munntóbaki og fínkornóttu neftóbaki er heimilt að selja þá í verslunum.
Þá er haft eftir Sigrúnu að ein skýring á minni sölu gæti verið hrun í farþegaflugi milli landa vegna kórónuveirufaraldursins þar sem sala fór einnig fram í Fríhöfninni.