Handbolti

Kielce framlengir samning Hauks um tvö ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur var bæði marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Olís-deildar karla á síðasta tímabili.
Haukur var bæði marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Olís-deildar karla á síðasta tímabili. vísir/vilhelm

Þrátt fyrir að hafa ekki enn spilað leik fyrir Kielce hefur pólska félagið framlengt samning Hauks Þrastarsonar, landsliðsmanns í handbolta, um tvö ár.

Haukur skrifaði undir þriggja ára samning við Kielce í nóvember á síðasta ári. Hann er nýkominn út til Póllands og eftir viðræður við Bertus Servaas, forseta Kielce, framlengdi Selfyssingurinn samning sinn við félagið.

Samningur Hauks við pólsku meistarana gildir því út tímabilið 2024-25. Forráðamenn Kielce virðast því hafa gríðarlega mikla trú á Hauki.

Einhver bið verður á því að hann leiki sinn fyrsta leik fyrir Kielce. Haukur er ristarbrotinn og fór í aðgerð fyrir tveimur vikum eins og fram kom á Vísi í gær. Hann býst við því að vera frá keppni í þrjá mánuði.

Auk Hauks fékk Kielce samherja hans úr íslenska landsliðinu, hornamanninn Sigvalda Guðjónsson, til sín í sumar. Sigvaldi kom til Kielce frá Noregsmeisturum Elverum.

Haukur, sem er nítján ára, var marka- og stoðsendingakóngur Olís-deildar karla á síðasta tímabili. Þegar keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins var Selfoss í 5. sæti. Tímabilið þar á undan urðu Selfyssingar Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×