Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að liðið sitt hafi ekki efni á því að gera nein mistök á félagsskiptamarkaðinum.
Arsenal situr í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar fyrir lokaumferðina á morgun og hefur liðið ekki endað neðar í 25 ár, þegar liðið endaði í 12. sæti. Arsenal getur í besta falli endað í 8. sæti eftir leikinn á morgun.
Arteta tók við liðinu í desember síðastliðnum eftir slakt gengi Unai Emery sem þjálfara liðsins. Hann ætlar að taka til í leikmannahópnum þegar glugginn opnar.
„Ég er mjög ánægður með að eigendurnir og stjórnin eru að taka rétt á þessum erfiðu tímum hjá okkur. Við vitum að við höfum ekki efni á því að gera nein mistök í sumar, allt þarf að ganga samkvæmt áætlun og við þurfum að ná miklum framförum til að koma liðinu á hærra plan sem fyrst.
Við þurfum að greina af hverju hlutir gerast og það sem hefur ekki gengið upp þarf að breytast. Annars verðum við á sama stað næsta hálfa árið, árið eða tvö árin,“ sagði Arteta.