Swansea vann 1-0 sigur á Brentford í dramatískum leik. Þetta var fyrri leikur liðanna í undanúrslitum umspilsins um að komast upp í ensku úrvalsdeildina. Leikurinn fór fram á heimavelli Swansea í Wales.
Staðan í hálfleik var 0-0. Heimamenn í Swansea fengu víti á 64. mínútu en Andre Ayew brást bogalistin af vítapunktinum og lét verja frá sér. Aðeins tveimur mínútum síðar fékk Rico Henry, leikmaður Brentford, rauða spjaldið.
Brentford spilaði því restina af leiknum manni færri og á 82. mínútu nýttu leikmenn Swansea sér liðsmuninn. Andre Ayew bætti þá upp vítaklúðrið með því að skora frábært mark og tryggði Swansea 1-0 sigur.
Swansea leiðir því 1-0 í einvíginu, en seinni leikurinn fer fram næsta miðvikudag á heimavelli Brentford.