Störukeppni Manchester United og Dortmund heldur áfram. Manchester United hefur verið orðað við Jadon Sancho í allt sumar en Dortmund vill fá hærra verð fyrir hann en Man Utd er tilbúið að borga.
Þýskir miðlar segja Dortmund ætla bjóða honum nýjan samning og hækka hann upp í 173.000 pund á viku í laun.
Dharmesh Sheth, sérfræðingur hjá SkySports í félagsskiptamarkaðnum, segir að Sancho myndi að öllum líkindum hafna þeim samning, þar sem hann vilji ekki minnka möguleika sína á að fara til United.
„Ég hef heyrt frá fólkinu í kringum Sancho að ef hann verður ekki seldur í sumar muni hann ekki skrifa undir nýjan samning hjá Dortmund. Það er ný vídd í þessu máli.
Man Utd vill Sancho, Sancho vill fara til þeirra og það virðist vera vilji allra aðila að klára þessi félagsskipti. United telur verðmiðan of háan í þessu ástandi en Dortmund er ekki tilbúið að lækka kaupverðið. Ef ekkert gerist og Man Utd ákveður að bíða í ár, þá gætu þeir verið að hleypa öðrum lið að borðinu,“ sagði Sheth.
Í vikunni var greint frá því í fjölmiðlum að Rauðu djöflarnir hefðu frest þangað til á morgun til að klára kaupin. Nú lítur út fyrir að það muni taka lengri tíma.