Handbolti

Strákarnir okkar fylgdu í fótspor Rolling Stones og Johnny Cash | Myndir

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar
Strákarnir í Baltiska Hallen í dag.
Strákarnir í Baltiska Hallen í dag. vísir/andri marinó

Íslenska landsliðið í handknattleik tók sína fyrstu æfingu í Malmö klukkan 16.00 í dag en þeir þurftu að losa sig við ferðaþreytuna enda á ferðalagi alla síðustu nótt.

Þar sem íslenska liðið var fyrr á ferðinni en upphaflega stóð til þá átti það ekki bókaðan neinn æfingatíma. Það var hægt að koma liðinu að í Baltiska Hallen sem er sögufrægt hús en það opnaði árið 1964.

Þarna hafa margir merkir atburðir farið fram og meðal annars var spilað þarna á HM í handbolta fyrir 52 árum síðan. Listamenn eins og Rolling Stones og Johnny Cash hafa troðið þarna upp.

Þessi gamli, fallegi salur er heimavöllur HK Malmö en með því liði lék Stjörnumaðurinn Leó Snær Pétursson áður en hann fór í Stjörnuna. Guðlaugur Arnarsson og Valdimar Fannar Þórsson hafa einnig spilað fyrir þetta félag.

Þó svo þetta hús sé aðeins ári eldra en Laugardalshöllin þá tekur hún fleiri áhorfendur í sæti eða um 4.000. Þetta er líka mikil gryfja.

Alexander Petersson og félagar liðka sig fyrir æfingu.vísir/andri marinó
Landsliðsþjálfarinn var einbeittur á æfingunni.vísir/andri marinó
Nýliðinn Sveinn Jóhannsson tók vel á því.vísir/andri marinó
Arnar Freyr á fullri ferð.vísir/andri marinó
Hinn fertugi Guðjón Valur spilar enn eins og tvítugur.vísir/andri marinó
Metsöluhöfundurinn Björgvin Páll var í stuði.
Heimakletturinn Kári Kristján er mættur aftur.vísir/andri marinó
Yfirlitsmynd yfir salinn fallega.vísir/andri marinó



Fleiri fréttir

Sjá meira


×