Handbolti

„Sveinn er einn efnilegasti línumaður sem við Íslendingar höfum eignast síðustu ár“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveinn lék með ÍR í Olís-deild karla á síðasta tímabili.
Sveinn lék með ÍR í Olís-deild karla á síðasta tímabili. vísir/bára

Sveinn Jóhannsson, tvítugur línumaður SönderjyskE í Danmörku, var valinn í 17 manna hóp Íslands fyrir EM 2020.

Sveinn kemur inn í íslenska hópinn í stað Daníels Þórs Ingasonar sem er fingurbrotinn.

Sveinn er því á leið á sitt fyrsta stórmót. Hann hefur aðeins leikið sjö landsleiki og skorað í þeim 14 mörk.

Klippa: Sveinn á leið á sitt fyrsta stórmót



Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Sýn og handboltasérfræðingur, hefur mikið álit á Sveini.

„Hann er einn efnilegasti línumaður sem við Íslendingar höfum eignast síðustu ár. Hann vakti athygli með yngri landsliðum Íslands. Hann er stór og sterkur og feykilega öflugur varnarmaður,“ segir Gaupi um Svein sem lék með Fjölni og ÍR áður en hann hélt út í atvinnumennsku í fyrra.

„Hann hefur leikið vel í Danmörku í vetur og kannski betur en reiknað var með. Hann glímdi við meiðsli er hann lék með ÍR á síðasta tímabili. Hann er klárlega framtíðarlínumaður landsliðsins ásamt Ými Erni Gíslasyni. Þeir eiga það báðir sammerkt að geta komist í allra fremstu röð sem varnarmenn.“

Gaupi vill að Sveinn og Ýmir fái tækifæri í sókninni á EM.

„Auðvitað er Sveinn óskrifað blað í sókn. Þar á hann hins vegar mikið inni en vonandi fær hann tækifæri til að sýna í hvað í honum býr ásamt Ými. Mér finnst engin ástæða til að hafa þá lengur á kantinum í sókninni,“ segir Gaupi.

„Þeirra tími er kominn og nú er að kasta þeim út í djúpu laugina. Þeir munu örugglega komast í land og snerta bakkann fyrr en menn halda.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×