Eftir tvo tapleiki í röð er Ísland aftur komið á sigurbraut á EM í handbolta. Strákarnir okkar unnu góðan sigur á Portúgal, 28-25.
„Þetta er alveg ótrúlega ljúft. Það var gott að upplifa þetta. En líka ótrúlega skrýtið. Þetta er skrýtið mótt. Portúgal rúllaði yfir Svía og við rúlluðum yfir Portúgal snemma leiks í dag. Þetta jafnast svo allt út,“ sagði fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson við Vísi eftir leikinn í dag.
„Við höldum ró okkar þegar þeir komast aftur inn í leikinn. Við vorum flottir í dag, þó svo að við gerðum einhver mistök þá vorum við samt flottir og massívir, unnum mikilvæga bolta og sigldum þessu heim.“
Guðjón segir mismunandi eftir leikjum hversu mikið menn láta í sér heyra. Í dag létu menn vel heyra í sér.
„Við nelgdum vel á það flestir. Kannski þurfum við að öskra meira og vera með meiri læti gegn Slóveníu. Við vorum frábærir frá byrjun til enda í dag.“
