Janus Daði Smárason átti frábæran leik og skoraði átta mörk þegar Ísland sigraði Portúgal, 25-28, í öðrum leik sínum í milliriðli II á EM 2020 í dag.
„Þetta voru frábær tvö stig. Afgerandi tvö stig fyrir okkur,“ sagði Janus í samtali við Vísi eftir leik.
Eftir tvö töp í röð varð Ísland að vinna leikinn í dag.
„Það var frábær orka og andi í liðinu og betri en í síðustu tveimur leikjum. Við stóðum saman, spýttum í lófana og unnum,“ sagði Janus glaður í bragði.
En var þetta besti landsleikur Janusar á ferlinum?
„Það getur vel verið, ég man það ekki. Við vorum klókir og skynsamir. Þessir peyjar í vörninni eiga líka hrós skilið. Þeir eiga endalausa orku,“ sagði Janus að lokum.
