Handbolti

Guðmundur er afskaplega glaður að hafa lifað af dauðariðilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, er sáttur með árangur íslenska liðsins í riðlakeppninni þrátt fyrir tapið á móti Ungverjum í gær.

Íslenska liðið komst áfram með Ungverjum en stórar handboltaþjóðir eins og Danmörk og Rússland sátu eftir og eru á heimleið.

„Við getum bætt okkur heilmikið og höfum farið yfir þetta í morgun. Við erum að fara mæta frábæru liði en við sjáum fullt af tækifærum til að bæta okkar leik,“ sagði Guðmundur á blaðamannafundinum í dag.

Landsliðsþjálfarinn er mjög ánægður með að hafa komist áfram í milliriðilinn.

„Við erum afskaplega glaðir að vera í hópi þessara tólf liða. Mér fannst það frábær árangur því við vorum í erfiðum riðli. Þetta var svokallaður dauðariðill og það hefur ekki tekist hjá íslenska liðinu að komast áfram á síðustu tveimur stórmótum. Við erum stoltir af því,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur landsliðsþjálfari segir að síðustu fimmtán mínúturnar hafi ekki verið nógu góðar í leiknum á móti Ungverjalandi.

„Við gerðum ekki nægilega vel. Það er tvennt sem situr í manni. Sóknarleikurinn var ekki nægilega góður og við lentum í vandræðum með línumennina þeirra. Markvörðurinn var svo að taka of marga bolta,“ sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×