Handbolti

Uppgjör Henrys: Enn og aftur stóð ungverska gúllassúpan í strákunum okkar

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar
Guðjón Valur var markahæstur í íslenska liðinu ásamt Aroni Pálmarssyni. Þeir skoruðu báðir fjögur mörk.
Guðjón Valur var markahæstur í íslenska liðinu ásamt Aroni Pálmarssyni. Þeir skoruðu báðir fjögur mörk. vísir/epa

Að tapa mikilvægum handboltaleikjum gegn Ungverjum er orðið þreytt. Alveg svakalega þreytt. Eiginlega þreyttara en **** Svíagrýlan var á sínum tíma. Hrun í seinni hálfleik varð þess valdandi að okkar menn töpuðu, 18-24.

Leikurinn byrjaði líka hræðilega. Ungverjar komust í 3-0 og Roland Mikler varði allt í búrinu. Fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir tæpar sex mínútur en það gaf heldur betur tóninn fyrir næstu 24 mínútur.

Með tök á leiknum

Strákarnir skoruðu sex mörk í röð, komust í 6-3 og tóku völdin á vellinum. Vörnin var sem fyrr algjörlega stórkostleg en það var alltaf smá hikst á sókninni. Ungverska vörnin var nefnilega líka ansi öflug.

Mest náðu strákarnir fimm marka forskoti í hálfleiknum en það var blóðugt að eiga slakar lokamínútur og vera aðeins með þriggja marka forskot, 12-9, í leikhléi.

Það var ekki gaman að horfa upp á Ungverjana fagna í kvöld.vísir/epa

Hér varð hrun



Það var bras á sóknarleik íslenska liðsins í upphafi síðari hálfleiks en engan grunaði þó þvílíkt hrun var í uppsiglingu. Ungverjar komast yfir, 17-18, þegar 13 mínútur eru eftir. Það sem meira er þá virðast þeir hafa rotað strákanna okkar í leiðinni. Tyson stæl.

Strákarnir fóru úr því að leiða 17-16 í að tapa 18-24 á síðustu 16 mínútunum. 8-1 lokakafli. Já, 8-1. Þetta var algjörlega hrikalegt. Fyrir alla. Líka alla Danina í stúkunni sem þurftu á íslenskum sigri að halda en hverjum er ekki sama um þá? Þetta snérist um Ísland og tvö stig í milliriðil. Það gekk ekki. Því er nú verr og miður.

Alexander og félagar keyrðu á vegg í kvöld.vísir/epa

Martröðin Mikler



Ungverska liðið er gott. Miklu, miklu betra en nokkurn mann grunaði. Mikler er líka góður í markinu en kannski ekki alveg svona góður. Hann hitti á leik lífs síns. Því miður þurfti hann að gera það í kvöld.

Að Ísland skori samt bara sex mörk í einum hálfleik er skandall. Þetta lið er svo miklu betra en það. Þar er ekki við einn mann að sakast. Það reyndu allir en ekkert gekk. Menn gátu ekki einu sinni skorað úr vítum. Fjögur víti fóru í súginn. Þetta var svona dagur. Liðið getur betur og veit það best. Það náði því miður enginn sínu besta fram.

Þetta er stórmót í handbolta og strákarnir mega ekkert hengja haus þó svo tapið svíði alveg svakalega. Það eru fjórir leikir eftir. Liðið hefur þegar náð fyrsta markmiði sínu og það seinna er enn innan seilingar. Upp með hökuna, drengir.


Tengdar fréttir

Aron: Skítlé­legir í síðari hálf­leik

Aron Pálmarsson, stórstjarna íslenska landsliðsins, segir að tapið gegn Ungverjum í kvöld skýrist best með "skítlélegum“ síðari hálfleik.

Guðmundur: Við þurfum að skoða frammistöðu okkar vel

Guðmundur Guðmundsson sagði að afspyrnuslakur kafli íslenska landsliðsins í síðari hálfleik gegn Ungverjum í dag hafi verið banabiti strákanna okkar. Tap Íslands þýðir að liðið fer stigalaust í milliriðlakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×