„Þetta var viðbjóður, það er bara þannig,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson við Vísi eftir tapið fyrir Ungverjalandi, 18-24, í dag.
„Það kom hrikaleg lægð í þetta hjá okkur í sókninni í seinni hálfleik. Við vorum með alltof marga tæknifeila í seinni hálfleik. Við fengum úrvalsfæri allan leikinn sem hann [Roland Mikler] varði.“
Kári stóð í ströngu á línunni í leiknum. „Þetta var bara eins og hver annar dagur á skrifstofunni og ekkert meira um það að segja,“ sagði Eyjamaðurinn.
Hann sagði alltof mörg dauðafæri farið í súginn í dag.
„Þeir voru flatir á miðsvæðinu og mér fannst við skapa ágætis færi allan leikinn, þannig upplifði ég það allavega en við kláruðum færin ekki nógu vel.“
Kári segir að íslenska liðið sé ekki af baki dottið þrátt fyrir vonbrigði dagsins.
„Það er hundleiðinlegt því við gerðum okkur vonir um að taka tvö stig með okkur í milliriðil og taka Danina með okkur. En það er búið en fjórir leikir eru eftir,“ sagði Kári að lokum.
