Handbolti

Aron: Skítlé­legir í síðari hálf­leik

Anton Ingi Leifsson skrifar

Aron Pálmarsson, stórstjarna íslenska landsliðsins, segir að tapið gegn Ungverjum í kvöld skýrist best með „skítlélegum“ síðari hálfleik.

Ísland var yfir í hálfleik en í síðari hálfleiknum hrundi spilaborgin.

„Við vorum skítlélegir í síðari hálfleik. Við spiluðum mjög illa. Við nýtum færin mjög illa,“ sagði Aron við Henry Birgi Gunnarsson í leikslok.

„Varnarleikurinn var flottur. Við vorum í smá basli með línumanninn, en við vissum af því, svo 24 mörk eiga að duga með eins gott sóknarlið og við erum með.“

Sóknarleikurinn gekk illa og þá sér í lagi í síðari hálfleik þar sem Ísland skoraði einungis sex mörk.

„Þeir voru flatir á okkur. Þeir eru stórir og þungir og mér fannst við ekki leysa það vel. Það er ömurlegt því maður sá opnanir og við vissum hvað við værum að fara út í en við framkvæmdum það hrikalega illa.“

Hann segir að tapið sé gífurlega svekkjandi.

„Að sjálfsögðu. Við ætluðum okkur áfram með tvö stig en því miður verður þetta töluvert erfiðara en það er að setja þetta ofan í skúffu og hugsa um næsta leik,“ sagði Aron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×