Handbolti

Sigvaldi: Danirnir hóta að hætta að tala við mig ef við vinnum ekki Ungverja

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar
Sigvaldi Björn var kátur í gær.
Sigvaldi Björn var kátur í gær.

Hornamaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson sló eftirminnilega í gegn í leiknum gegn Rússum þar sem hann skoraði hvert glæsimarkið á fætur öðru.

„Það er ógeðslega gaman núna og verður bara skemmtilegra. Við erum góðir og með flott lið. Góð blanda í liðinu. Nú er það bara næsti leikur,“ sagði Sigvaldi hógvær en hann gat ekki neitað fyrir að það hefði verið mikið að gera í símanum eftir Rússa-leikinn.

„Það var mjög mikið. Líka eftir Danaleikinn því þá fóru allir Danirnir að senda á mig að við yrðum að vinna annars myndu þeir ekki tala við mig. Þetta er búið að vera gaman.“

Sigvaldi flutti til Danmerkur 12 ára gamall og spilaði handbolta þar áður en hann fór yfir til Elverum í Noregi. Hann heldur svo til Kielce í Póllandi næsta sumar.

Hann á því marga félaga í Danmörku og finnst ekkert leiðinlegt að örlög Dana séu í höndum Íslands.

„Þetta er alveg geggjað og gott að vera á þessum stað og komnir áfram. Það væri geggjað að taka tvö stig með sér áfram,“ segir Sigvaldi en það verður örugglega sérstakt fyrir íslenska liðið að fá mikinn stuðning frá dönsku áhorfendunum.

„Þetta verður mjög spes. Það verður gaman að fá læti í höllina sem styðja okkur. Danirnir eru á hnjánum að grátbiðja okkur að vinna.“

Klippa: Danirnir láta Sigvalda ekki í friði

Tengdar fréttir

Dönsku fjölmiðlarnir sóttu fast að Guðmundi

Kaldhæðni örlaganna hefur hagað því þannig að framhaldslíf Dana á EM hangir á því að Guðmundi Guðmundssyni og strákunum okkar takist að leggja Ungverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×