Handbolti

Aron: Erum orðnir mjög góðir og sýndum það í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron hefur sjaldan eða aldrei leikið betur í landsliðstreyjunni og gegn Dönum.
Aron hefur sjaldan eða aldrei leikið betur í landsliðstreyjunni og gegn Dönum. vísir/epa

Aron Pálmarsson átti stórkostlegan leik þegar Ísland lagði heims- og Ólympíumeistara Danmerkur að velli, 30-31, í fyrsta leik sínum á EM 2020 í dag.

Aron skoraði tíu mörk og gaf níu stoðsendingar í leiknum.

„Mér líður frábærlega. Við vorum að vinna besta landslið í heimi. Ég er svolítið hátt uppi en líka þreyttur,“ sagði Aron við Vísi eftir leik.

„Ég var vel innstilltur í þetta. Við vorum gríðarlega vel undirbúnir. Mér fannst vörnin hjá þeim opin. Þetta gekk mjög vel.“

Aron segir að undirbúningurinn fyrir leikinn hafi verið fyrsta flokks.

„Þú getur rétt ímyndað þér. Gummi er búinn að hafa þrjár vikur til að undirbúa þetta. Við erum orðnir mjög góðir og sýndum það í dag. Við spiluðum vel í dag og þegar við náum því fram erum við illviðráðanlegir. Þetta var verðskuldaður sigur,“ sagði Aron.

Þrátt fyrir sigurinn er hann með báða fætur á jörðinni.

„Þetta eru bara tvö stig. Við höfum alveg unnið toppþjóð í fyrsta leik og skitið svo á okkur. Við getum enn ekki farið áfram og höfum lent í því áður. En við ætlum svo sannarlega ekki að láta það gerast aftur,“ sagði Aron.

Hann segir að íslenska liðið hafi aldrei lagt árar í bát í dag, jafnvel þegar á móti blés.

„Við töluðum mikið um það að við mættum ekki tapa leik á því að trúa ekki á verkefnið. Það væri glórulaust. Ég er hrikalega ánægður og stoltur,“ sagði Aron að endingu.

Klippa: Viðtal við Aron

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×