Íslendingarnir létu til sín taka er GOG vann 33-29 sigur á Skanderborg í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.
Viktor Gísli Halgrímsson varði fimmtán skot í marki GOG og endaði með um 35% markvörslu. Arnar Freyr Arnarsson gerði þrjú mörk og Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði tvö.
GOG er í 4. sæti deildarinnar eftir sigurinn, þremur stigum frá öðru sæti deildarinnar.
Guðjón Valur Sigurðsson og félagar í PSG lentu ekki í miklum vandræðum með Toulouse á útivelli í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur 36-28.
Guðjón Valur Sigurðson komst ekki á blað í leiknum. PSG er með sex stiga forskot á toppi deildarinnar en liðið hefur unnið alla fjórtán leiki sína á leiktíðinni.
Ágúst Elí Björgvinsson og félagar í Savehof unnu fjögurra marka sigur á Guif, 33-29, er liðin mættust í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Ágúst Elí varði vel í marki sænsku meistaranna en Savehof er í 8. sæti deildarinnar eftir 23 leiki.
Sigrar hjá Íslendingaliðunum
