Janus Daði Smárason hefur verið útnefndur leikmaður vikunnar í bestu handknattleiksdeild í heimi, Meistaradeild Evrópu.
Janus Daði átti frábæran leik fyrir Aalborg þegar liðið náði í stig í Ungverjalandi með 26:26-jafntefli við Pick Szeged, lið Stefáns Rafns Sigurmannssonar. Janus Daði skoraði meðal annars sex mörk í leiknum og var markahæstur ásamt Buster Juul-Lassen.
Aalborg er í 4. sæti af átta liðum í A-riðli þegar þrjár umferðir eru eftir og búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum. Pick Szeged er í 2. sæti riðilsins, tveimur stigum á eftir toppliði Barcelona.