Fótbolti

Alfreð skoraði í tapi | Samúel Kári spilaði allan leikinn fyrir Paderborn

Ísak Hallmundarson skrifar
Alfreð kom inn af bekknum og skoraði
Alfreð kom inn af bekknum og skoraði vísir/getty

Nokkrir leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í dag.

Samúel Kári Friðjónsson var í byrjunarliði Paderborn í fyrsta skipti þegar liðið heimsótti Mainz. Lokatölur urðu 2-0 fyrir Mainz en mörkin gerðu þeir Robin Quaison og Karim Onisiwo. Samúel lék allar 90 mínútur leiksins.

Alfreð Finnbogason kom inn sem varamaður á 73. mínútu og skoraði þegar lið hans, Augsburg, tók á móti Gladbach. Staðan í hálfleik var 0-0 en það færðist heldur betur líf í leikinn í seinni hálfleik.

Gladbach komst í 2-0 á 53. mínútu áður en Eduard Lowen minnkaði muninn fyrir Augsburg. Lars Stindl kom Gladbach svo í 3-1 með öðru marki sínu í leiknum, en á 83. mínútu minnkaði Alfreð Finnbogason muninn í 3-2 og urðu það lokatölur.

Augsburg er í 12. sætinu, sex stigum fyrir ofan fallsvæðið en Paderborn situr á botni deildarinnar, níu stigum frá öruggu sæti.

Borussia Dortmund vann síðan mikilvægan sigur í toppbaráttunni, 1-0 gegn Freiburg á heimavelli Dortmund. Jadon Sancho gerði eina mark leiksins á 15. mínútu. Dortmund er í 3. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Bayern.

Þá stendur yfir leikur FC Bayern og Hoffenheim þar sem staðan er 6-0 fyrir Bayern, en leikurinn tafðist um 20 mínútur vegna hegðunar stuðningsmanna Bayern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×