Enski boltinn

„Eins og að fara í bardaga með byssu en engum kúlum“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mourinho klappar leikmönnum sínum á bakið eftir leikinn í gær.
Mourinho klappar leikmönnum sínum á bakið eftir leikinn í gær. vísir/getty

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, lét allt flakka eftir að lærisveinar hans töpuðu 1-0 fyrir Leipzig á heimavelli í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær.

Leipzig var mun sterkari aðilinn, þá sér í lagi í fyrri hálfleik, en Tottenham var heppið að vera bara 1-0 undir í hálfleik.

Fyrsta spurning fréttamanns BT Sport eftir leikinn snérist um hvort að áhorfendur hafi fengið að sjá hið alvöru „Spurs“ eftir skiptingar Mourinho í síðari hálfleik.

„Hvað ertu að meina með alvöru „Spurs“? Láttu ekki svona, verum hreinskilnir við strákanna og segjum þeim að þeir gerðu allt sem þeir gátu,“ sagði Mourinho eftir leikinn.

„Veistu hvað Lamela náði mörgum æfingum fyrir leikinn? Engri. Kom úr meiðslum í meðhöndlun með sjúkraþjálfaranum og í 20 mínútur í Meistaradeildinni.“

Portúgalinn segir að liðið sakni greinilega og eðlilega, þeirra Harry Keane og Son Heung-min.

„Þú verður að sjá hvernig við erum á þessu augnabliki. Þetta er eins og að fara í bardaga með byssu með engum kúlum. Þú getur sagt að við vorum heppnir en markvörðurinn varði tvisvar frábærlega.“







„Ég er ekki áhyggjufullur eftir 1-0. Við getum farið þangað og unnið. Það sem veldur mér áhyggjum er að þetta eru leikmennirnir mínir í næstu mörgum leikjum.“

„Moura var algjörlega dauður, Bergwijn var algjörlega dauður, Lo Celso var algjörlega dauður. Við erum í vandræðum. Ef það væri bara þessi leikur myndi ég segja að það væru engin vandamál en við erum í enska bikarnum og deildinni líka.“

Erik Lamela og Tanguy Ndombele komu með mikinn kraft inn í Tottenham-liðið í síðari hálfleik. Mourinho segir að það hafi þó ekki verið möguleiki fyrir þá að byrja leikinn.

„Ekki segja mér að Lamela og Ndombele hafi getað byrjað leikinn því þeir hefðu ekki getað það.“

Að lokum skaut Portúgalinn föstum skotum að fréttamanninum sem tók viðtalið. Hann kom frá BT Sport en leik Chelsea og Tottenham á laugardaginn var flýtt til klukkan 12.30 að beiðni BT Sport.

Klippa: Tottenham - Leipzig 0-1

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×