Viðskipti innlent

Bensínverð lækkar vegna kórónuveirunnar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Olíuverð hefur lækkað á heimsvísu vegna kórónuveirunnar. Innkaupastjóri segir það koma greinilega fram á Íslandi.
Olíuverð hefur lækkað á heimsvísu vegna kórónuveirunnar. Innkaupastjóri segir það koma greinilega fram á Íslandi. Mynd/Vísir.

Olíuverð á Íslandi hefur lækkað nokkuð skarpt vegna kórónuveirunnar þar sem eftirspurn hefur dregist saman á heimsvísu. Veiran hefur einnig áhrif inn í kauphöllina þar sem hlutabréf hafa hríðfallið.

„Það er nú oft þannig að þú færð öfgakenndustu viðbrögðin á Íslandi. O þannig hefur úrvalsvísitalan íslenska til dæmis lækkað meira frá áramótum en DOW Jones," segir Snorri Jakobsson, hagfræðingur hjá greiningu Capacent.

Á síðasta mánuði hefur úrvalsvísitalan lækkað um hátt í tíu prósent. Hún tók þó við sér í dag í fyrsta sinn í nokkurn tíma samhliða hækkunum á öllum félögum í kauphöllinni. Kórónuveiran hefur haft svipuð neikvæð áhrif í kauphöllum um allan heim. Og þá sérstaklega á hlutabréf flugfélaga vegna óvissu í ferðaþjónsutu. Á síðasta mánuði nemur lækkunin hjá Icelandair 25 prósentum.

Snorri Jakobsson, hagfræðingur hjá Capacent.

„Það er útlit fyrir að það verði samdráttur í ferðaþjónustu í ár og þar af leiðandi gætum við séð samdrátt í landsframleiðslu," segir Snorri.

Til marks um þetta bendir hagfræðideild Landsbankans á að komum kínverskra ferðamanna gæti fækkað vegna veirunnar. Gert hafði verið ráð fyrir verulegri fjölgun.

Veiran hefur víðtækari áhrif á markaði og vegna minni eftirspurnar hefur olíuverð tekið skarpa dýfu. Það birtist meðal annars á Íslandi. Hér á landi hefur verð lækkað nokkuð síðan í lok janúar.

„Hérna heima hefur bensínverð lækkað um sjö krónur og dísillinn um tíu krónur," segir Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri N1.

Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri N1.

Þetta sé ekki síst óvenjulegt fyrir þær sakir að díselolía hækkar vanalega um þessar mundir vegna aukinnar kyndingar.

„En vegna kórónuvírussins. Aðallega bara vegna hans, að þá hefur orðið töluverð lækkun," segir hann. 

OPEC-ríkin funda í Vínarborg á morgun og talið er líklegt að ákveðið verði að draga úr framleiðslu. Magnús segist ekki viss um að það dugi til að ná jafnvægi.

„Vegna þess að áhrifin frá kórónuvírusnum eru svo mikil. Til dæmis eru Kínverjar farnir að fara flytja út bensín. Sem er nú vanalega þjóð sem þarf að flytja inn eldsneyti. Af því eftirspurnin hefur minnkað svo mikið," segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×