Handbolti

Elín Jóna áfram lykilmaður Vendsyssel | Þjálfarinn hæstánægður

Elín Jóna Þorsteinsdóttir með þjálfaranum Kent Ballegaard.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir með þjálfaranum Kent Ballegaard. mynd/vendsyssel

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður í handbolta, hefur verið algjör lykilmaður hjá Vendsyssel sem er á toppi næstefstu deildar Danmerkur. Hún hefur nú skrifað undir nýjan samning til tveggja ára við félagið.

Elín Jóna kom til Vendsyssel frá Haukum sumarið 2018 og þjálfarinn Kent Ballegaard er hæstánægður með að þessi 23 ára leikmaður verði áfram í röðum félagsins:

„Frammistöður Elínar hafa á þessu tímabili stöðugt verið á mjög háu stigi og hún hefur oft gert gæfumuninn í leikjum. Hún hefur án nokkurs vafa verið besti markvörður deildarinnar og oft verið með mjög tilkomumikla tölfræði. Hæfileikar hennar í markinu eru óumdeildir. Þess vegna er mjög ánægjulegt að hún skuli framlengja. Hún er mikilvægur hlekkur í framtíð Vendsyssel. Elín gæti átt mjög bjarta framtíð og við ætlum að vinna saman að því, og ég hlakka mikið til þess,“ sagði Ballegaard.

Vendsyssel er með 33 stig eftir átján leiki í 1. deildinni, tveimur stigum á undan Ringköbing og með leik til góða. Útlitið er því afar gott varðandi möguleikann á að komast upp í úrvalsdeild.

„Ég er mjög ánægð með að hafa framlengt samninginn við Vendsyssel því ég hef haft það mjög gott hjá félaginu. Á þeim tíma sem ég hef verið í félaginu hafa orðið margar jákvæðar breytingar og ég er mjög ánægð með fá tækifæri til að halda áfram að taka þátt í þeirri þróun,“ sagði Elín Jóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×