Hraðinn í samskiptum í 5 G fjarskiptakerfinu verður tíu sinnum meiri en nú þekkist. Tæknin mun hafa mikil áhrif á samfélög framtíðarinnar og segir tæknistjóri Vodafone fulla ástæðu til að byggja upp regluverk um öryggi þessarar nýju tækni.
Vodafone kynnir þessa dagana 5G fjarskiptalausnir sem verið er að byggja upp. En þær byggja einmitt á búnaði frá kínverska tæknirisanum Huawei sem bandarísk stjórnvöld hafa lagt fæð á og skorað á stjórnvöld annarra ríkja að banna. Það er kaldhæðnislegt að kynningin fer fram beint á móti framtíðar sendiráðsbyggingu Bandaríkjamanna í Reykjavík.

Fyrstu sendarnir eru komnir upp og verða prufukeyrðir með völdum viðskiptavinum Vodafone og Nova sem sameiginlega setja sendana upp um allt land þegar þar að kemur. Kjartan Briem tæknistjóri Vodafone segir að hraðinn á gagnaflutningum í 5G verði um tíu sinnum meiri en nú. Þannig tæki aðeins nokkrar sekúndur að hala niður kvikmynd.

„Svona í byrjun er þetta aðallega meiri hraði og betri upplifun. En í framtíðinni er þetta farið að breyta heilmiklu í okkar samfélagi. 5G snýst ansi mikið um samskipti tækjanna að gera þau möguleg og hluti mögulega eins og fyrir umhverfið. Fyrir sjálfkeyrandi bíla og svo framvegis," segir Kjartan.
Bandaríkjastjórn og aðrir gagnrýnendur 56 hafa varað við því að búnaðurinn opni gátt fyrir kínversk stjórnvöld inn í samskipti fólks og ríkja. Kjartan segir Huawei fremsta í heiminum í framleiðslu þessa búnaðar og því væri glapræði að hleypa þeim ekki að hér á landi. En þessi búnaður sé ekki sá eini sem komi að fjarskiptainnviðum samfélaga.
„En vissulega verður þetta mikilvægari hluti innviða landsinis og það er full ástæða til að taka öryggismál alvarlega í þessu samhengi,“ segir Kjartan. Ekki væri skynsamlegt að horfa á einn framleiðanda og segja hann hættulegri en aðra. Nær væri að að byggja upp regluverk um tæknina.
„Þar sem gengið er úr skugga um að ekki sé hægt að nýta sér einhverja veikleika í kerfinu. Það er miklu mikilvægari hluti en að einblína á einhvern einn framleiðanda,“ segir Kjartan Briem.
Vodafone er í eigu Sýnar sem einnig á fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis.